almenni bikarinn
Útlit fyrir íslenskt rafíþróttamót
Ég hef spilað Overwatch reglulega síðan leikurinn var gefinn út og hef fylgst með Overwatch League frá byrjun. Mér hefur alltaf þótt mikið til koma útlits Overwatch League og ákvað að bjóða fram mína þekkingu til að vinna að útliti Almenna Bikarsins og liðanna sem þar taka þátt. Reiknað var með um 5-10 liðum, en þegar upp var staðið voru liðin 16 talsins.
Innblásturinn sótti ég í Overwatch League útlitið, en þar er útlit og heiti hvers liðs sérhannað út frá ákveðnum borgum með tengingar í þær. Liðin sjálf eru í eigu stærstu rafíþróttafélaga heims, sem fá þó ekki að nota eigin nöfn. Útkoman er litríkt og heildstætt útlit Overwatch League, sem er eitthvað sem mig langaði til að prófa.
Rætt var við fyrirliða hvers liðs fyrir sig og þeim boðið að velja íslensk bæjarfélög sem ekki væru mjög þekkt (Reykjavík, Akureyri, Ísafjörðu, Egilsstaðir t.d. ekki í boði). Í framhaldinu leitaði ég að tengingum við þau bæjarfélög sem valin voru og reyndi að hafa samræmi á milli liða með því að tengja í annað hvort Íslendingasögurnar eða aðrar gamlar sögur frá hverjum stað eða nágreni þeirra.
Ég er mjög ánægður með útkomuna, þó alltaf megi bæta eitthvað. Mótið kemur til með að vera haldið reglulega og mun ég líklega uppfæra merkin og útlitið í framtíðinni.






